
Borgartún 26 í Reykjavík
Sumarið 2025 setti Alor upp sólarorkukerfi á þak á 8. hæðar Borgartúns 26 í Reykjavík. Kerfið samanstendur af 51 sólarsellu með 23 kW uppsettu afli og 50 kWst rafhlöðuskáp sem staðsettur er utandyra á þakinu. ​Áætlað er að kerfið framleiði 18.000-20.000 kWst árlega sem samsvarar rafmagnsnotkun um fimm íslenskra meðalheimila árlega.
​
Verkefnið er tilraunaverkefni Alor með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum og Eik fasteignafélagi hf. Í byggingunni er umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið með starfsstöðvar sínar, sem og fleiri opinberir aðilar. Ráðuneytið og Framkvæmdasýslan munu nýta það rafmagn sem framleitt verður á þaki byggingarinnar.
​​
Þetta er í fyrsta sinn sem ráðuneyti orkumála tekur þátt í grænni orkuframleiðslu með beinum hætti og er með samningnum því brotið blað í sögu orkuöflunar á Íslandi. Verkefnið er sett af stað í kjölfarið á gerð skýrslu um bætta orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar sem gefin var út á vegum starfshóps ráðuneytisins í apríl 2024.


